Brotist var inn í aðstöðu FH í Kaplakrika í dag en ekki mikið af verðmætum virðist hafa horfið í innbrotinu. Þetta kemur fram á samfélagsmiðlum félagsins.
FH er á leið inn í spennandi tíma í Bestu deild karla og kvenna og slær félagið á létta strengi í yfirlýsingu sinni.
„Það var ófögur sjón sem blasti við starfsfólki Kaplakrika þegar það mætti til vinnu í morgun. Þá kom í ljós að brotist hefði verið inn á eina af skrifstofum félagsins með því að brjóta rúðu;“ segir í yfirlýsingu.
„Við fyrstu sýn virðisti lítið af verðmætum hafa horfið og vakna þá óhjákvæmilega spurningar hvort sálfræðihernað mótherja okkar í lokaumferðum Bestu deildarinnar sé að ræða,“ segir einnig.
Segir í yfirlýsingu FH að leikbók Heimis Guðjónssonar sé á sínum stað í læstri hirslu og að bækurnar sem þjálfarar kvennaliðsins noti fari alltaf með þeim heim.