Chelsea gæti átt von á þungri sekt eftir að enska knattspyrnusambandið ákærði félagið fyrir alls 74 brot á reglum um umboðsmenn leikmanna og þriðja aðila á tímum Roman Abramovich.
Roman átti félagið um langt skeið en nú er félagið rekið af Ameríkumönnum.
FA staðfesti ákærurnar í tilkynningu sem birt var í morgun. „Knattspyrnusamband Englands (FA) hefur í dag ákært Chelsea FC fyrir brot á reglugerðum J1 og C2 í reglum FA um umboðsmenn leikmanna, ásamt brotum á reglum A2 og A3 í reglugerðum FA um viðskipti með milliliði og einnig á reglum A1 og B3 í reglugerðum FA um fjárfestingu þriðju aðila í leikmönnum,“ segir í yfirlýsingu.
Samtals hefur Chelsea FC verið ákært fyrir 74 brot. Umrædd brot áttu sér stað á árunum 2009 til 2022 og tengjast að mestu atvikum sem áttu sér stað á tímabilunum 2010-11 til 2015-16.
Chelsea FC hefur frest til 19. september 2025 til að skila inn formlegu svari. Um er að ræða nýjustu vendinguna í rannsókn sem staðið hefur yfir frá því að nýir eigendur tóku við félaginu árið 2022 og komu sjálfir upplýsingum um möguleg brot á framfæri við yfirvöld.