Jadon Sancho er að ganga í raðir Aston Villa frá Manchester United. Frá þessu greina helstu miðlar í morgunsárið.
United er búið að reyna að losa sig við Sancho í allt sumar og nú er það að takast. Fer hann á láni til Villa til að byrja með. Hann á ár eftir af samningi sínum á Old Trafford en United á möguleika á að framlengja hann til 2027. Mun það áfram halda því opnu.
Sancho var á láni hjá Chelsea á síðustu leiktíð. Lundúnafélagið greiddi 5 milljóna punda sekt til að sleppa við kaupskyldu sína á honum að tímabili loknu.
Kantmaðurinn gekk í raðir United frá Dortmund á 73 milljónir punda fyrir fjórum árum. Hann hefur engan veginn staðið undir verðmiðanum á þeim tíma.