Sögusagnir um spennu innan Beckham fjölskyldunnar fengu byr undir báða vængi um helgina þegar Brooklyn Beckham, elsti sonur David og Victoriu Beckham, virti að vettugi afmæli litla bróður síns, Romeo, sem fagnaði 23 ára afmæli sínu þann 1. september.
Romeo fékk hlýjar kveðjur og ástúðleg skilaboð frá vinum og fjölskyldu, þar á meðal frá föður sínum, David Beckham. Beckham deildi gamalli mynd af Romeo brosandi með barnatennur og skrifaði: „Þú ert góður, hógvær, kurteis, vinnusamur og sérstakur fyrir alla sem þekkja þig. Við elskum þig óendanlega mikið, eigðu dásamlegan dag.“
En á meðan fjölskyldan tók þátt í afmælishátíðinni, ákvað Brooklyn að sleppa því að senda bróður sínum opinbera afmæliskveðju. Í staðinn birti hann færslur frá daglegu lífi sínu í Beverly Hills með eiginkonu sinni, leikkonunni Nicola Peltz.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Brooklyn virðir að vettugi stórar stundir innan fjölskyldunnar. Hann tók ekki þátt í 50 ára afmæli föður síns í Bretlandi, þrátt fyrir að hafa dvalið í London með Nicolu á sama tíma.
Þá hefur hann heldur ekki tjáð sig opinberlega um þegar David var sæmdur riddarakrossi fyrr á árinu, og enginn úr fjölskyldunni var boðaður í endurnýjun hjúskaparheitanna sem Brooklyn og Nicola héldu nýverið á glæsilegri eign föður hennar.
Á meðan deilurnar halda áfram, hafa Romeo og faðir hans David sýnt náin tengsl sín á milli, meðal annars með því að deila myndum úr sumarfríi.
Sagt er að Brooklyn Beckham eigi í deilum við foreldra sína, David og Victoriu Beckham, vegna þess að hann upplifi skort á stuðningi af þeirra hálfu gagnvart eiginkonu sinni, Nicolu.
Sagt er að David og Victoria líti á Nicolu sem stjórnsama, á meðan Nicola og Brooklyn telja að tilraunir Beckham-hjónanna til að ná sáttum opinberlega séu ekki einlægar. Þau telja að framkoma fjölskyldunnar hafi skapað fjarlægð.