Margir ráku upp stór augu þegar Gylfa Þór Sigurðssyni, besta landsliðsmanni Íslandssögunnar, var skipt af velli í stórleik Víkings gegn Breiðabliki í gær.
Staðan var 2-1 fyrir Víking og þeir manni fleiri þegar Gylfi var tekinn af velli. Skömmu síðar jöfnuðu Blikar og voru líklegri til að stela sigrinum í restina. Jafntefli varð þó niðurstaðan.
„Það er eiginlega kviknað í spjallborðunum, hvað var hann (Sölvi Geir þjálfari Víkings) að hugsa með því að taka Gylfa út af. Ég gat ekki séð að Gylfi væri meiddur. Þeir eru með algjört kontrol á leiknum. Gylfi var með algjört kontrol á þessum leik,“ sagði Hjörvar Hafliðason um málið í Dr. Football.
Það var bent á að Gylfi hafi verið á gulu spjaldi. „Þú hlýtur að treysta Gylfa til að vera á gulu spjaldi síðustu 20 mínúturnar, manni fleiri. Það er enginn betri í deildinni í að stýra tempóinu og klára þessi þrjú stig,“ sagði Albert Brynjar Ingason.
Þetta var rætt á fleiri vettvöngum, til að mynda samfélagsmiðlum. „Skiptingin á Gylfa Sig er lögreglumál og brottrekstarsök,“ sagði sparkspekingurinn Kristján Óli Sigurðsson á X.
Skiptingin á Gylfa Sig er lögreglumál og brottrekstarsök.
— Kristján Óli Sigurðsson (@kristjanoli) August 31, 2025