Stuðningsmaður Víkings var laminn í andlitið af stuðningsmönnum Bröndby fyrir utan Ölver í Glæsibæ í gær er hann tók símtal. Hann sagði frá þessu í samtali við Vísi.
Stuðningsmenn Bröndby létu, eins og og fram hefur komið, öllum illum látum í Víkinni í gærkvöldi, er þeir sáu sitt lið óvænt tapa 3-0 gegn Víkingi í Sambandsdeildinni.
Meira
Myndband: Danskar bullur gengu berserksgang í Reykjavík – Lúskruðu á íslenskum áhorfendum
Danirnir tóku tapinu vægast sagt illa og gengu þeir til að mynda í skrokk á einhverjum íslenskum stuðningsmönnum undir lok leiks. Þá veltu stuðningsmenn Bröndby við útikamri á leið sinni af vellinum og þurfti lögreglan að hafa sig alla við að koma þeim út af svæðinu, til að mynda með því að beita því sem virtist vera piparúrði.
Stuðningsmenn Víkings og aðrir íslenskir gestir þurftu, samkvæmt fyrirmælum lögreglu, þá að bíða dágóða stund eftir að komast af vellinum, til að forða þeim frá því að mæta þeim dönsku þegar út var komið. Vesenið á dönsku bullunum hélt svo áfram á Ölver eftir leik.
„Ég fór út af Ölver til að taka símtal og þá koma þrír Bröndby menn upp að mér og spyrja hvort ég sé með vesen. Ég spyr til baka hvort þeir séu tapsárir og þeir ýta í mig og lemja mig í andlitið,“ sagði ónefndur stuðningsmaður Víkings í samtali við Vísi.
„Ég labba frá þeim og fer inn á Ölver aftur, segi Víkingunum frá þessu og þeir koma allir út. Þá bakka þeir [stuðningsmenn Bröndby] frá okkur en koma svo aftur, allir með grímu fyrir andlitið og réðust á okkur. Það endaði í blóðugum slag, sem betur fer fór enginn upp á slysó, en þeir eru greinilega tapsárir,“ sagði hann enn fremur.