Elmar Kári Enesson Cogic, lykilmaður Aftureldingar, fékk gult spjald fyrir leikaraskap í jafnteflinu gegn Vestra í Bestu deildinni í gærkvöldi. Magnús Már Einarsson, þjálfari Mosfellinga, var ekki sáttur við þetta.
Þetta var í annað skiptið á leiktíðinni sem Elmar fær gult spjald fyrir leikaraskap og er hann á leið í leikbann.
„Elmar Kári fær annan heimaleikinn í röð áminningu þar sem dómarar ásaka hann um leikaraskap. Hann er kominn með óþarfa stimpil á sig og ég held að mögulega 2-3 leikmenn í deildinni geta dripplað á sama hraða og hann.
Það þarf litla snertingu til þess að detta og ekkert mál að dæma ekki brot það gerist. Þetta var ekki einu sinni inn í teig og það á bara að halda áfram með leikinn,“ sagði Magnús við Sýn eftir leik.
„Ég mæli með að dómarar nái þessum hraða með boltann og fá smá snertingu og sjá hvað gerist,“ sagði hann enn fremur.