KR hefur gengið afleitlega á tímabilinu í Bestu deild karla. Liðið var til umræðu í Innkastinu á Fótbolta.net eftir einn eitt tapið, nú gegn ÍBV á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum.
KR er í næstneðsta sæti deildarinnar eftir 17 leiki, tveimur stigum frá öruggu sæti. Liðinu og Óskari Hrafni Þorvaldssyni þjálfara hefur verið mikið hrósað fyrir að spila skemmtilegan fótbolta, sér í lagi framan af móti.
„Sama hvað er búið að heilaþvo fólk þá missa leikmenn sjálfstraust þegar þeir tapa leik eftir leik. Þeir eru í næstsíðasta sæti,“ sagði Valur Gunnarsson í Innkastinu.
KR hefur tapað átta af síðustu ellefu leikjum í deildinni. Þá hafa síðustu leikir ekki verið sama markaveislan og fyrr í mótinu.
„Í byrjun tímabils fyrirgaf maður KR því þetta voru ekkert eðlilega skemmtilegir leikir. Nú eru þetta þrjú mörk í fjórum leikjum, þeir eru ekki einu sinni skemmtilegir lengur. Lið eru búin að lesa þá,“ sagði Valur.