Cardiff hefur fengið markvörðinn Nathan Trott á láni frá Íslendingaliði FC Kaupmannahafnar.
Trott er 26 ára gamall fyrrum markvörður West Ham, en hann var ekki lengur inni í myndinni hjá FCK.
Danska liðið fékk Króatann Dominik Kotarski í markið í sumar og virðist hinn ungi Oscar Buur vera kostur númer tvö í markið hjá Jacob Neestrup þjálfara.
Trott verður á láni hjá C-deildarliði Cardiff út leiktíðina og hefur félagið möguleika á að kaupa hann næsta sumar.
Hjá FCK er einnig Rúnar Alex Rúnarsson. Hann var aftur kominn í leikmannahópinn gegn Malmö í Meistaradeildinni í gær í fjarveru Trott.
Það virðist sem svo að Rúnar, sem kom til FCK frá Arsenal í byrjun síðasta árs, sé þriðji markvörður Kaupmannahafnarliðsins sem stendur.
Rúnar hefur aðeins spilað einn leik með FCK á tíma sínum þar, í undankeppni Sambandsdeildarinnar í fyrra.