Manchester United gæti snúið sér að Ollie Watkins ef félaginu tekst ekki að landa Benjamin Sesko, og er sóknarmaðurinn opinn fyrir skiptum á Old Trafford.
The Sun segir frá þessu, en Sesko er sterklega orðaður við bæði United og Newcastle. Síðarnefnda félagið bauð þó 78 milljónir punda í Slóvenann í gær og finnst félagi hans, RB Leipzig, meira heillandi að gera viðskipti við Newcastle en United.
Fari svo að Sesko endi hjá Newcastle er Watkins klár í að fara á Old Trafford, en hann er til í nýja áskorun eftir nokkur góð ár hjá Aston Villa.
Villa gæti þá þurft að selja til að halda sig innan ramma fjárhagsreglna. Félagið vildi heldur selja menn eins og Jacob Ramsey og Leon Bailey, en ekkert almennilegt tilboð hefur borist í þá enn.
Talið er að Watkins myndi kosta United á bilinu 40 til 50 milljónir punda.