Lars Lagerback, einn allra besti landsliðsþjálfari sem Ísland hefur átt, getur ekki tekið þátt í hinni metnaðarfullu Valsakademíu vegna slyss sem hann varð fyrir í garðinum heima hjá sér.
Valur segir frá þessu í tilkynningu á samfélagsmiðlum, en Valsakademían hefst með pompi og prakt á miðvikudag.
Tilkynnig Vals
Lars Lagerbäck fyrrum landsliðsþjálfari sem ætlaði að vera einn af leiðbeinendum Valskademíunnar í ár hefur því miður þurft að draga sig út úr prógramminu. Lars var við vinnu í garðinum heima hjá sér í fyrrakvöld þegar hann fór úr mjaðmalið og þurfti tafarlaust að fara í aðgerð.
Lars er miður sín yfir því að geta ekki tekið þátt en hann var mjög spenntur að koma aftur til Íslands og leiðbeina ungum íslendingum. Lars stefnir hins vegar á að koma á næsta ári.
Valsakademían hefst eins og áður hefur verið auglýst á miðvikudaginn, og prógramið helst óbreytt að öðru leyti:
Á miðvikudaginn:
🔹 09:00-09:45 – Fyrirlestur með Heimi Hallgrímssyni, landsliðsþjálfara Írlands og fyrrum landsliðsþjálfara Íslands
🔹 Í kjölfarið stýrir Heimir æfingu
🔹 12:00 – Fyrirlestur með Ólafi Stefánssyni, einum besta íþróttamanni Íslandssögunnar
Við óskum Lars góðs bata og hlökkum til að sjá sem flesta á miðvikudaginn!