Það er óhætt að segja að goðsögnin Peter Schmeichel sé ekki hrifinn af leikstíl Arsenal en hann lét í sér heyra eftir stórleik helgarinnar.
Schmeichel var stórkostlegur markvörður á sínum tíma en hann er sérfræðingur hjá ViaPlay í dag.
Hann tjáði sig eftir 1-0 sigur Liverpool á Arsenal í dag en skemmtanagildi leiksins var í lágmarki.
Schmeichel kennir Mikel Arteta, stjóra Arsenal, um það og að hann sé ekki að leyfa sínum leikmönnum að spila sinn besta leik.
,,Ég hef aldrei á ævinni haldið með liði meira en ég hélt með Liverpoool í dag. Arsenal er að bjóða okkur upp á ljóta tegund af fótbolta,“ sagði Schmeichel.
,,Arteta… Leyfðu leikmönnunum að spila fótbolta, slepptu þeim úr haldi, leyfði þeim frjálsræði. Ég er viss um að ef það gerist þá munu þeir vinna fleiri fótboltaleiki.“
,,Ég er ekki að reyna að móðga Arsenal en þessi tegund af fótbolta er svo pirrandi að horfa á, það sem þeir reyna að gera er að komast í andstæðinginn og svo bíða eftir föstum leikatriðum.“