Eins og margir vita þá er búið að reka Jose Mourinho í enn eitt skiptið en í þetta sinn var það hjá tyrknenska félaginu Fenerbahce.
Mourinho var rekinn eftir tap gegn Benfica í undankeppni Meistaradeildarinnar eftir stutt stopp í Tyrklandi.
Mourinho kom til Fenerbahce í fyrra en eftir slæmt gengi undanfarið hefur hann nú fengið sparkið.
Portúgalinn mun fá um 13 milljónir punda í sinn vasa en Fenerbahce þarf að borga upp samning þjálfarans.
Þetta þýðir að Mourinho er nú búinn að þéna um 17 milljarða króna á sínum ferli aðeins fyrir það að vera rekinn.
Mourinho hefur margoft fengið samninga sína borgaða upp en hann var rekinn frá stórliðum eins og Chelsea, Real Madrid, Manchester United og Tottenham svo eitthvað sé nefnt.
Mourinho nálgast 100 milljónir punda í þessum greiðslum en Chelsea þurfti á sínum tíma að borga 26 milljónir punda beint í hans vasa.