Landsliðshópur Arnars Gunnlaugssonar var til umræðu í Þungavigtinni í dag. Þar settu menn út á nokkrar ákvarðanir.
Karlalandsliðið leikur gegn Aserbaídsjan heima eftir viku og Frakklandi ytra fjórum dögum síðar. Um fyrstu leiki undankeppni HM á næsta ári er að ræða.
Mikael Nikulásson segir það hafa komið sér verulega á óvart að sóknarmaðurinn Brynjólfur Willumsson, sem hefur verið að gera góða hluti með Groningen í Hollandi, sé ekki í hópnum.
„Það kemur mér á óvart að Brynjólfur Willumsson sé ekki þarna og það er nánast lögreglumál. Það virðist ekki skipta neinu máli hvað menn eru að gera með sínum liðum,“ sagði hann.
Kristján Óli Sigurðsson furðaði sig á því að Bjarki Steinn Bjarkason, leikmaður Venezia, sé í hópnum en ekki Dagur Dan Þórhallsson hjá Orlando City.
„Bestu mennirnir okkar eru þarna en aðrir munu vera að sækja bolta. Sævar Atli Magnússon, Anton Ari, hann er ekki búinn að geta neitt síðustu tvo mánuði.
Arnar sagði í vor að Dagur Dan væri kominn á undan Bjarka en það hefur greinilega mikið gerst hjá Bjarka á undirbúningstímabilinu í B-deild á Ítalíu því Dagur er búinn að spila mikið með Orlando.“
Kristján vill meina að það skipti máli hvort leikmenn séu hjá Stellar umboðsskrifstofunni, þar sem Bjarki Gunnlaugsson, bróðir landsliðsþjálfarans Arnars, starfar.
„Ef þú ert ungur leikmaður og ekki hjá Stellar þá færðu aldrei tækifæri með landsliðinu,“ hélt hann fram.
Arnar er á leið inn í sitt þriðja landsliðsverkefni til þessa og klárlega það mikilvægasta. Kristján virðist ekki sannfærður um að hann sé rétti maðurinn í starfið.
„Ég er búinn að fá frá 5-6 aðilum að það séu 50/50 líkur á að Arnar verði þjálfari Íslands eftir október-verkefnið. Það er bara út af því hvernig hann talar og annað, hann ætlar á HM og eins og staðan er núna erum við ekki að fara að gera það. Ég kvíði fyrir verkefninu í Frakklandi.“