Fyrrum enski landsliðsframherjinn Emile Heskey telur að Liverpool og Newcastle United muni ná samkomulagi um kaup á Alexander Isak á lokadögum félagaskiptagluggans og hann spáir því að Svíinn slái í gegn á Anfield.
Englandsmeistararnir reyndu þegar að tryggja sér þjónustu Isak með 110 milljóna punda tilboði í byrjun mánaðarins, en því var hafnað. Á sama tíma neitaði framherjinn að taka þátt í æfingaferð Newcastle til Asíu og sneri þess í stað aftur til æfinga hjá fyrrum félagi sínu, Real Sociedad.
Í síðustu viku gaf Isak út yfirlýsingu á Instagram, þar sem hann sakaði félagið um brotin loforð og vantraust. Newcastle brást fljótt við með eigin yfirlýsingu þar sem staðfest var að skilyrði fyrir sölu hans væru ekki uppfyllt.
Á meðan á þessu stóð hefur Newcastle átt erfitt með að finna arftaka. Tilraunir til að fá Liam Delap og João Pedro runnu út í sandinn, báðir gengu í raðir Chelsea. Hugo Ekitike fór til Liverpool, og Benjamin Šeško gekk í raðir Manchester United fyrir 73 milljónir punda fyrr í mánuðinum. Nú er Eddie Howe og hans liði að reyna að landa Yoane Wissa frá Brentford og Jørgen Strand Larsen frá Wolves.
„Ég held að þessi lið [Liverpool og Newcastle] nái samkomulagi,“ sagði Heskey.
„Það er svekkjandi hvernig þetta hefur þróast, en í raun gæti það komið báðum aðilum vel að leysa málið.“
„En staðreyndin er sú að þegar þú ert með samning við leikmann, þá ertu með öll spil á hendi. Ég kenni Newcastle ekkert um, þeir verða að reyna að fá sem mest fyrir verðmætasta leikmann sinn. Allt þetta umstang sem er í kringum þetta núna og pressan sem fylgir því er eitthvað allt annað en ég upplifði sjálfur.“
Heskey bætti við: „Ef þessi félagaskipti gerast, þá er fyrsta skrefið að njóta þess. Aðdáendurnir á Anfield munu elska þig. Eitt það besta við stuðningsmenn Liverpool er hvernig þeir standa við bakið á leikmönnum sínum.“