Lögreglurannsókn á innbroti á heimili enska landsliðsmannsins Jack Grealish hefur verið felld niður án þess að nokkur grunaður hafi verið handtekinn.
Þrátt fyrir „ítarlega rannsókn“ hefur lögreglan ekki fundið nein haldbær sönnunargögn í málinu, en innbrotið átti sér stað í desember 2023 á heimili Grealish í Cheshire, þegar hann var í leik með Manchester City gegn Everton.
Innbrotsþjófarnir komust undan með skartgripi og úr að andvirði 166 milljóna króna. Á heimilinu á meðan voru kærasta hans, Sasha Attwood, og tíu fjölskyldumeðlimir. Sasha kallaði strax eftir aðstoð en þjófarnir höfðu flúið vettvang áður en hægt var að grípa til aðgerða.
Ensk blöð segja að bæði Jack og Sasha, sem eru bæði 29 ára, séu „niðurdregin“ yfir því að málið hafi verið lagt niður og að glæpamennirnir komist líklega upp með þetta.
Lögreglan hafði áður gert „viðamiklar rannsóknir“ í nágrenni hússins, en án árangurs. Sú ákvörðun að hætta rannsókn styrkir grunsemdir um að um hafi verið að ræða skipulagðan glæp erlendra innbrotsgengja.
Heimili Jack, í nágrenni Knutsford í Cheshire, er á svæði sem áður hefur verið skotmark erlendra innbrotsgengja frá Brasilíu, Mexíkó, Chile og Perú.