Það er mikil samkeppni um stöðu markvarðar hjá íslenska karlalandsliðinu, en Hákon Rafn Valdimarsson og Elías Rafn Ólafsson spila í stórum liðum.
Hákon hefur verið aðalmarkvörður í undanförnum landsliðsverkefnum en er hann hins vegar kostur númer tvö hjá liði sínu, úrvalsdeildarliðinu Brentford. Hann stóð þó milli stanganna og stóð sig frábærlega í 0-2 sigri á Bournemouth í enska deildarbikarnum í gær.
Elías er þá orðinn aðalmarkvörður danska liðsins Midtjylland á nýjan leik. Um er að ræða lið sem verður í deildarkeppni Evrópudeildarinnar í vetur.
„Þetta er eiginlega góður hausverkur. Það væri frábært ef þeir væru báðir að spila og báðir fastamenn. Staðan fyrir svona mánuði var sú að þeir voru hvorugir að spila en nú eru þeir báðir komnir í blússandi form, sérstaklega Elías og Hákon átti stórleik í gær,“ segir Arnar Gunnlaugsson landsliðsþjálfari um markmannsmálin.
„Ég ætla ekki að væla yfir því að þurfa að velja milli tveggja frábærra markmanna. Það er bara gott fyrir okkur.“
Ísland mætir Aserbaídsjan og Frakklandi í fyrstu leikjum undankeppni EM í næsta mánuði. Þess má geta að Anton Ari Einarsson hjá Breiðabliki er þriðji markvörðurinn í hópnum.
Ítarlegt viðtal við Arnar um nýjasta landsliðshópinn og komandi leiki er í spilaranum.