Georginio Wijnaldum, fyrrum leikmaður Liverpool, er allt annað en sáttur með vinnubrögð ESPN sem ákvað að birta ummæli leikmannsins sem hann lét falla fyrir um tíu árum síðan.
Wijnaldum var þá að undirbúa sig fyrir skipti til Liverpool frá Newcastle en það sama mun líklega gerast með Alexander Isak á næstunni.
Isak hefur verið í umræðunni í allt sumar en hann neitar að spila og æfa með Newcastle og vill komast til Liverpool sem fyrst.
ESPN rifjaði upp ummæli Wijnaldum frá 2016 þar sem hann tjáði sig um skiptin en hann hafði þó ekkert nema góða hluti að segja.
Hollendingurinn sagðist aldrei hafa neytt félagið í að selja sig en var þó ákveðinn í að fara til Liverpool ef tækifærið væri í boði.
ESPN ákvað að líkja þessum félagaskiptum saman sem fór virkilega illa í miðjumanninn sem spilar í Sádi Arabíu í dag.
,,Þetta er eitthvað sem ég sagði fyrir um tíu árum og áður en ég fór til Liverpool,“ sagði Wijnaldum.
,,Af hverju er verið að birta þetta í dag eins og þetta sé mín skoðun á stöðu Isak? Þetta tengist Isak og þessum félögum en ekki mér. Ekki blanda mér í þetta mál. Takk fyrir.“