Thomas Frank, stjóri Tottenham, útilokar ekki að hann muni hringja í Jurgen Klopp eftir sigur sinna manna gegn Manchester City í gær.
Tottenham vann virkilega góðan 0-2 útisigur á City í hádeginu í gær en Frank notaðist við svipað leikskipulag og Klopp gerði á sínum tíma sem stjóri Liverpool.
Daninn viðurkennir að hafa nýtt sér hugmyndafræði Klopp í þessum leik og er óhætt að segja að hún hafi skilað árangri í frábærum sigri.
,,Hann er gáfaður náungi, ég þyrfti að heyra í honum og segja það við hann!“ sagði Frank við blaðamenn.
,,Ég trúi að sjálfsögðu á mikinn pressubolta og mér líkar við það að vera liðið sem stjórnar. Þetta er ein leið til þess að verjast með því að sækja.“
,,Það er skemmtilegra að verjast á vallarhelmingi andstæðingsins og í dag þá náðum við árangri með því og skoruðum mark vegna þess.“