Granit Xhaka hefur svarað fjölmiðlum í Þýskalandi sem hafa fjallað um það að hann hafi yfirgefið Bayer Leverkusen í sumar vegna Erik ten Hag.
Ten Hag tók við Leverkusen í sumar en greint var frá því að Xhaka væri alls ekki ánægður með komu Hollendingsins.
Xhaka harðneitar að Ten Hag hafi verið ástæðan en hann gerði sjálfur samning við Sunderland í sumar.
,,Það pirrar mig verulega að það sé fjallað um að Erik hafi verið vandamálið. Hann var aldrei vandamálið, aldrei!“ sagði Xhaka.
,,Hann hringdi í mig eftir um þrjár til fjórar vikur eftir hans komu því hann vildi ekki trufla mig í sumarfríinu.“
,,Við áttum gott samtal og hann vissi að ég væri að leitast eftir spennandi tilboði. Hann fann á sér að ég væri á förum en ef ég hefði verið áfram þá væri ég hans fyrirliði í dag.“