Gylfi Þór Sigurðsson kemur til greina í landsliðshóp Arnars Gunnlaugssonar fyrir leikina við Aserbaídsjan hér heima og Frakka ytra í byrjun næsta mánaðar.
Það var fjallað um þetta í Þungavigtinni í dag, en þar sagði Kristján Óli Sigurðsson frá því að Gylfi væri í sérstökum forhóp yfir þá leikmenn sem kæmu til greina hjá Arnari og félög þeirra hafa verið látin vita af.
Gylfi er á mála hjá Víkingi hér heima og hefur verið nokkuð gagnrýndur fyrir frammistöðu sína í Bestu deildinni. Hann var hins vegar stórkostlegur gegn Bröndby í Sambandsdeildinni á dögunum og sýndi að hann hefur enn það sem þarf á stærsta sviðinu.
Gylfi, sem verður 36 ára á næstunni, sneri aftur í landsliðið undir stjórn Age Hareide síðasta haust en hefur síðan ekki verið valinn aftur. Það verður afar áhugavert að sjá hvort þessi markahæsti landsliðsmaður frá upphafi fái sénsinn í liði Arnars.
Um er að ræða fyrstu leiki í undankeppni HM. Leikurinn við Aserbaídsjan fer fram á Laugardalsvelli 5. september. Svo er spilað í París fjórum dögum síðar.