Liverpool telur sig enn geta fengið Alexander Isak frá Newcastle áður en félagaskiptaglugginn lokar. The Sun fjallar um málið í kvöld.
Framherjinn hefur verið sterklega orðaður við Liverpool undanfarnar vikur og hafnaði Newcastle 110 milljóna punda tilboði félagsins á dögunum.
The Sun segir þó að hjá Liverpool séu menn afar bjartsýnir á að 130 milljóna punda tilboð í Svíann muni duga. Er það í undirbúningi.
Liverpool og Newcastle mætast í ensku úrvalsdeildinni á laugardag og verður tilboðið ekki lagt fram fyrr en eftir þann leik, en þar má búast við miklum hita í ljósi stöðunnar.
Stuðningsmenn Newcastle eru brjálaðir út í Isak, sem neitar að mæta til æfinga. Hafa aðferðir hans til að reyna að koma sér í burtu verið harðlega gagnrýndar af mörgum.
Liverpool er þá enn á höttunum eftir Marc Guehi, miðverði og fyrirliða Crystal Palace. Félagið vill traustari mann en Ibrahima Konate við hlið Virgil van Dijk.
Guehi á aðeins ár eftir af samningi sínum við Palace og er Liverpool í ljósi þess til í að greiða um 35 milljónir punda fyrir hann.
Takist Liverpool að landa báðum leikmönnum myndi eyðsla félagsins í sumar fara vel yfir 450 milljónir punda í heild, en það hefur verið ansi duglegt á markaðnum í sumar.