Wrexham er sagt nálægt því að festa kaup á Callum Doyle, varnarmanni Manchester City, ef marka má fréttir frá Bretlandi.
Velska liðið hefur spænt sig upp um enska deildarkerfið undanfarin ár í kjölfar þess að Hollywood-stjörnurnar Ryan Reynolds og Rob McElhenny eignuðust það.
Wrexham er nú komið alla leið upp í ensku B-deildina og hefur það þegar fengið níu nýja leikmenn í sumar.
Það er útlit fyrir að Doyle, sem er 21 árs gamall, verði sá tíundi. Hann hefur verið lánaður frá City til Sunderland, Coventry, Leicester og Norwich undanfarin ár.
Nú fer hann líklega endanlega frá City, en Wrexham er til í að greiða 8 milljónir punda fyrir hann.
Doyle er leikmaður enska U-21 ára landsliðsins og getur hann spilað bæði sem miðvörður og vinstri bakvörður.