Enska knattspyrnufélagið Crystal Palace hefur hafið viðræður við Leicester City um kaup á sóknarmanninum Bilal El Khannouss, sem hugsanlegur arftaki Eberechi Eze. Heimildir Sky Sports News herma að samningurinn sem um ræðir gæti numið allt að 30 milljónum punda.
Leicester eru tilbúnir að selja hann þar sem félagið þarf að auka tekjur til að uppfylla reglur ensku deildanna um fjármálalega sjálfbærni (PSR). Auk þess vill nýr knattspyrnustjóri liðsins, Marti Cifuentes, fá fjárhagslegt svigrúm til að styrkja hópinn í baráttunni um sæti í ensku úrvalsdeildinni á ný.
Palace er þó ekki bara að skoða El Khannouss og hefur einnig augastað á gríska landsliðsmanninum Christos Tzolis, sem leikur með Club Brugge í Belgíu.
Félagið er tilbúið að greiða 26 milljónir punda (30 milljónir evra) fyrir Tzolis, en Brugge vill hærra verð, sérstaklega í ljósi þess að leikmaðurinn skrifaði undir nýjan fjögurra ára samning fyrr í sumar.
Club Brugge er nú statt í Glasgow þar sem liðið undirbýr leik sinn gegn Rangers í forkeppni Meistaradeildar Evrópu í kvöld. Tzolis er í leikmannahópi Brugge fyrir leikinn, en ekki er vitað hvort hann komi við sögu.
Viðræður milli Crystal Palace og Tottenham Hotspur um sölu Eberechi Eze halda áfram, en Palace vill tryggja sér arftaka áður en félagið samþykkir að láta hann fara.