Elvar Geir Magnússon, ritstjóri Fótbolta.net, varð hissa á fundi í höfuðstöðvum KSÍ í aðdraganda bikarúrslitaleiks karla á föstudag í kjölfar ræðu frá starfsmanni sambandsins.
Valur og Vestri eigast við í úrslitaleiknum og að sögn Elvars voru fulltrúar félaganna beðnir um að hvetja sína stuðningsmenn til að neyta ekki áfengis í kringum leikinn.
„Óskar Örn Guðbrandsson brýndi fyrir fulltrúum félaganna að vera bara með í því að segja við fólk að mæta allsgátt á völlinn, vera ekkert að fá sér bjór og muna eftir leiknum. Ég hugsaði: Erum við á leið í bikarúrslit í Norður-Kóreu?“ segir Elvar í Innkastinu á Fótbolta.net.
„Mér fannst asnalegt að tala eins og maður myndi ekki muna eftir fótboltaleik ef maður fær sér 2-3 bjóra yfir honum. Hvað erum við? Við erum fullorðið fólk,“ segir hann enn fremur.
Mikil umræða hefur verið um bjórsölu á knattspyrnuleikjum hérlendis undanfarið og eru skoðanir skiptar. Einhver félög hafa leyfi til að selja áfengi en önnur ekki. Eru dæmi um að lögregla hafi skipt sér af í slíkum tilfellum.