Rico Lewis virðist ekki vera á förum frá Manchester City í sumar eftir allt saman.
Lewis hefur verið sterklega orðaður við Nottingham Forest undanfarið, en hann byrjaði fyrsta leik City á tímabilinu gegn Wolves um helgina.
Bakvörðurinn lék alls 44 leiki í öllum keppnum með City á síðustu leiktíð en missti sæti sitt í liðinu til Matheus Nunes þegar leið á hana.
„Ég held að hann verði áfram, hann sagði það við mig. Ég held það en veit samt ekki með vissu hvað gerist,“ segir Pep Guardiola, stjóri City, um framtíð Lewis.
Kappinn tjáði sig einnig sjálfur um stöðuna. „Ég hef aldrei viljað fara. Ég er að upplifa drauminn með því að spila fyrir City. Ég er mjög glaður hér.“