Það fór fram fjörugur leikur í Bestu deild karla í kvöld en leikið var á heimavelli Aftureldingar.
Afturelding mætti þar liði KA í efstu deild þar sem sex mörk voru skoruð og var nóg um að vera.
Leiknum lauk með 3-3 jafntefli en það var boðið upp á ótrúlegt fjör í seinni hálfleiknum.
Tvenna frá Hallgrími Mar Steingrímssyni dugði ekki til sigurs fyrir KA sem þurfti að sætta sig við jafntefli.
Afturelding fékk vítaspyrnu á 59. mínútu sem Benjamin Stokke klikkaði á en stuttu seinna fékk KA sína vítaspyrnu og skoraði Hallgrímur til að koma KA yfir.
Aketchi Kassi skoraði í kjölfarið magnað skallamark fyrir heimamenn áður en Hallgrímur skoraði aftur fyrir gestina.
Aron Jóhannsson jafnaði svo metin aðeins mínútu seinna og tryggði Aftureldingu flott stig í mjög skemmtilegum leik.