Enzo Maresca, stjóri Chelsea, hefur staðfest það að markmið félagsins í vetur sé að vinna ensku úrvalsdeildina.
Maresca vakti athygli á síðustu leiktíð er hann greindi frá því að liðið væri ekki að reyna að vinna titilinn þrátt fyrir að vera í toppbaráttunni um áramótin.
Eftir þau ummæli þá virtist allt fara úrskeiðis hjá Chelsea sem endaði að lokum í fjórða sæti en tókst að tryggja Meistaradeildarsæti.
Maresca er þó fullur sjálfstrausts fyrir þetta tímabil og telur að hans menn geti veitt Liverpool, Arsenal og Manchester City keppni í titilbaráttunni.
,,Fyrir einu ári síðan þá vorum við langt frá þeim liðum sem voru að taka yfir enska boltann en nú erum við mun nær og vonandi höldum við áfram að bæta okkur,“ sagði Maresca.
,,Við getum komist nær og barist um titilinn. Þegar þú ert hjá Chelsea þá er markmiðið alltaf að vinna leiki og vinna titla. Við munum reyna.“