Eden Hazard hefur viðurkennt það að hann hafi verið mjög hrifinn af Arsenal á sínum tíma er hann var táningur að hefja sinn fótboltaferil.
Hazard var aðallega aðdáandi sóknarmannsins Thierry Henry sem er talinn einn besti framherji í sögu ensku úrvalsdeildarinnar.
Hazard hefur lagt skóna á hilluna í dag en hann lék lengi með Chelsea og endaði ferilinn hjá Real Madrid.
Það er rígur á milli Chelsea og Arsenal og bað Belginn tökumenn í gríni um að klippa út ummælin sem hann lét falla um þá rauðklæddu.
,,Ég vissi af Chelsea vegna Didier Drogba og annarra leikmmanna, Nicolas Anelka, þetta voru leikmenn sem ég var hrifinn af,“ sagði Hazard.
,,Þetta var ekki mitt draumafélag svo ég komi því á framfæri, fólk ætti að vita það.“
,,Ég var alltaf stuðningsmaður Real Madrid og einnig aðdáandi Thierry Henry svo ég var hrifinn af Arsenal. Ég ólst upp við að horfa á leiki Arsenal.“
,,Við getum klippt þetta út eftir viðtalið!“