Helgi Fannar Sigurðsson skrifar frá Sviss
Að dvelja á glæsihótelinu Parkhotel Gunten hér í Thun dugði ekki til þess að íslenska kvennalandsliðið næði markmiðum sínum og kæmist upp úr riðlakeppni EM. Jörundur Áki Sveinsson, yfirmaður knattspyrnumála hjá KSÍ, ræddi valið á hótelinu við 433.is á dögunum.
„Það er ekki hægt að biðja um mikið betra en þetta. Það er náttúrulega fáránlega fallegt umhverfi hérna og við völdum þessa staðsetningu með það í huga að hún gæti létt undir ef eitthvað er erfitt, hjálpað til við að halda andanum góðum og það er að rætast,“ sagði Jörundur, en á þeim tímapunkti hafði Ísland aðeins spilað við Finna.
„Þegar búið var að draga í desember fórum við á fullt í hótelmál. Ég held við höfum skoðað 15-20 hótel. Það voru ákveðnar reglur um hvaða hótel við máttum velja út frá staðsetningum og annað.
Þetta var flókið og ekki alltaf skemmtilegt en við komum síðan hingað í desember í góðu vetrarveðri. Hótelið var lokað og við fengum að skoða það hátt og lágt, valsa hér um. Og um leið og við löbbuðum út í þennan garð var þetta málið.“