KSÍ þarf að senda fleiri sálfræðinga á næsta stórmót hjá kvennalandsliðinu miðað við hvernig hefur gengið á EM í Sviss.
Þetta segir blaðamaður Morgunblaðsins, en Ísland er úr leik þó svo að ein umferð sé eftir af riðlakeppninni. Mikið stress og óröryggi hefur einkennt leik liðsins.
„Þær höndla ekki þessa pressu. Það er leiðinlegt að segja það en út á við virkar það þannig,“ sagði Bjarni Helgason á Morgunblaðinu í hlaðvarpi 433.is um EM, en miklar væntingar voru gerðar til íslenska liðsins fyrir mót.
„Ég held að það séu 23 í starfsliðinu. Það er spurning hvort það þurfi ekki að skipta einhverjum af þeim út fyrir næsta mót og senda bara út fimm sálfræðinga,“ sagði Bjarni enn fremur.
Ísland hefur tapað gegn Finnum og Sviss á mótinu og mæta Noregi í leik sem skiptir engu máli á fimmtudag.