Bjarni Helgason stjörnublaðamaður Morgunblaðsins telur útséð með það að Íslendingur geti tekið kvennalandsliðið og bætt það meira. Frá þessu segir hann í Morgunblaðinu í dag.
Bjarni telur að KSÍ þurfi að fá inn erlendan þjálfara ef sambandið ákveður að skipta út Þorsteini Halldórssyni þjálfara liðsins.
Íslenska liðið er úr leik á Evrópumótinu eftir tvo leiki í riðlakeppni, yfirlýst markmið liðsins var að fara áfram úr riðlinum.
„Ég hef rætt við þrjá íslenska þjálfara um landsliðið undanfarna daga og þeir hafa allir sömu sögu að segja. Það sé óraunhæft að ætlast til þess að Ísland stýri leikjum á stórmóti, við séum ekki með leikmennina í það,“ skrifar Bjarni í Morgunblaðið.
Hann sér því engan íslenskan kost í stöðunni ef Þorstein hættir með liðið. „Ef KSÍ tekur ákvörðun um að skipta um þjálfara eftir mótið þá er þetta rétti tímapunkturinn til þess að fá inn erlendan þjálfara. Einhvern sem sér hlutina í nýju ljósi og kemur með nýjar og öðruvísi áherslur.“
„Í nútímafótbolta verðurðu að geta haldið eitthvað aðeins í boltann og íslenskir þjálfarar virðast sannfærðir um að liðið geti það ekki.“