Helgi Fannar Sigurðsson skrifar frá Sviss
„Niðurstaðan var þung og erfið. Það eru helstu lýsingarorðin sem koma upp í hugann,“ sagði Þorsteinn Halldórsson landsliðsþjálfari í dag eftir tap Íslands gegn Sviss í gær, sem þýðir að liðið er úr leik á EM þó einn leikur sé eftir í riðlinum gegn Noregi.
„Mér fannst þetta að mörgu leyti fínn leikur. Þetta var lokaður leikur og ég held að eina opna færið hafi verið fyrsta markið. Mér fannst við vera með þær þegar leið á leikinn.
Mér leið vel, fannst við vera með undirtökin. En þær eru með góða leikmenn sem klára þennan leik. Það sem skildi á milli er að þær nýttu sinn opna séns. Það var munurinn í þessum leik.“
Þorsteinn segir það óneitanlega vonbrigði að komast ekki upp úr riðlinum.
„Við settum okkur það markmið og að sjálfsögðu eru mikil vonbrigði að ná því ekki. Okkur líður illa í dag en við höfum skyldum að gegna gagnvart fólkinu sem er mætt út að fylgjast með okkur. Við þurfum að rífa okkur í gang og vera klár á fimmtudag.“
Þorsteinn var þá spurður út í framtíð sína með liðið.
„Ég er ekki að íhuga hana í dag. Ég spái ekki í þetta. Mitt markmið er bara Noregur og að koma liðinu í gír fyrir þann leik. Framtíðin er eitthvað sem kemur í ljós. Ég á örugglega eftir að setjast niður með yfirmönnum mínum og fara yfir þessa hluti“
Nánar í spilaranum.