Luke Shaw, leikmaður Manchester United, segir að andrúmsloftið innan leikmannahópsins hafi oft á tíðum verið eitrað á hans rúma áratug hjá félaginu.
Gengi United undanfarin ár hefur verið slakt og var síðasta tímabil engan veginn ásættanlegt, en liðið hafnaði í 15. sæti ensku úrvalsdeildarinnar.
„Það er nokkuð augljóst fyrir þá sem eru utanaðkomandi hvernig þetta hefur verið. Stóran hluta tímans sem ég hef verið hér hefur andrúmsloftið verði mjög neikvætt. Það getur verið ansi eitrað, það er alls ekki heilbrigt,“ segir Shaw.
Ruben Amorim tók við á síðustu leiktíð og sér bakvörðurinn fram á bjartari tíma á Old Trafford undir stjórn Portúgalans.
„Við sem leikmenn, sérstaklega við sem erum reynslumeiri, þurfum að krefjast meira af okkur. Ruben kemur inn með það, þessar kröfur og öðruvísi hugarfar.“
Þá telur Shaw að United geti barist um Englandsmeistaratitilinn á næstu leiktíð. „Já ég held það. Við erum með gott lið.“