Luis Diaz er formlega genginn í raðir Þýskalandsmeistara Bayern Munchen frá Liverpool, en hann var kynntur til leiks nú í morgunsárið.
Hinn 28 ára gamli Diaz kostar Bayern um 65 milljónir punda og skrifar hann undir fjögurra ára samning, en hann átti tvö ár eftir af samningi sínum á Anfield.
Diaz spilaði stóra rullu í Englandsmeistaraliði Liverpool á síðustu leiktíð en tekur nú nýtt skref, sem hann kveðst spenntur fyrir.
„Ég er mjög glaður. Það er þýðingarmikið fyrir mig að spila fyrir Bayern, eitt stærsta félag heims. Mig langar að vinna alla titla sem eru í boði,“ sagði Diaz eftir undirskrift.