Það er nokkuð ljóst að Federico Chiesa er á förum frá Liverpool í sumar eftir aðeins eitt ár á Anfield. Hann vill aftur heim til Ítalíu.
Chiesa kom til Liverpool í fyrra frá Juventus en var í algjöru aukahlutverk í Englandsmeistaraliðinu, auk þess sem hann glímdi við meiðsli.
Félagið er til í að selja hann í sumar og hafði Jose Mourinho, stjóri tyrkneska stórliðsins Fenerbahce, til að mynda áhuga. Ítalskir miðlar segja að Chiesa hafi hins vegar hafnað því að fara þangað.
Kantmaðurinn er sagður vilja snúa aftur í Serie A, þar sem hann hefur verið orðaður við þó nokkur lið.