Juventus er á fullu að reyna að fá Randal Kolo Muani endanlega til félagsins frá Paris Saint-Germain eftir árangursríka lánsdvöl hans í Tórínó á síðustu leiktíð. Manchester United gæti þó mætt í kapphlaupið.
Ítalska blaðið Gazzetta dello Sport fjallar um málið, en þar segir að hjá Juve hafi menn áhyggjur af því að United komi inn í myndina og klófesti Kolo Muani, sem hefur verið talinn á leið til ítalska félagsins í sumar.
Juve ætlar sér því að setja allt á fullt til að klára kaupin á þessum 26 ára gamla framherja, sem skoraði 10 mörk í 22 leikjum eftir áramót á síðustu leiktíð.
United er í framherjaleit og hafa þó nokkrir verið orðaðir við félaigð í sumar. Félagið er sagt vera á eftir Benjamin Sesko hjá RB Leipzig um þessar mundir, en líklegra þykir að hann endi hjá Newcastle eins og staðan er.