Það er allt í rugli hjá liði Boca Juniors sem er eitt allra stærsta ef ekki stærsta félagið í Argentínu.
Boca tapaði 1-0 gegn Huracan um helgina í efstu deild og hefur byrjað tímabilið á tveimur jafnteflum og einu tapi.
Boca er á versta skriði í sögu félagsins en liðið hefur ekki unnið í síðustu 11 leikjum sínum og virðist allt vera að fara til fjandans innan sem utan vallar.
Stuðningsmenn Boca eru svo sannarlega blóðheitir og hafa látið vel í sér heyra og gagnrýnt allt sem gengur á hjá félaginu.
Boca hefur aldrei spilað 11 leiki áður í sögunni án þess að vinna leik en um er að ræða eitt stærsta félag í Suður Ameríku.
Það eru stjörnur á mála hjá félaginu en nefna má Edinson Cavani og Leandro Paredes.