Það kom mörgum á óvart að Steven Caulker, fyrrum leikmaður í ensku úrvalsdeildinni, hafi ekki byrjað eða komið við sögu með Stjörnunni í leiknum gegn Aftureldingu í Bestu deildinni í gær.
Stjarnan fékk Caulker til sín á dögunum en þurfa stuðningsmenn áfram að bíða eftir því að sjá hann í bláu treyjunni.
„Þeir leggja gríðarlega áherslu á hann og hann er bara geymdur á bekknum,“ sagði Elvar Geir Magnússon, ritstjóri Fótbolta.net, í hlaðvarpinu Innkastið á miðlunum.
Valur Gunnarsson benti á að Sindri Þór Ingimarsson hafi farið meiddur af velli í fyrri hálfleik. Einhverjir hefðu þá haldið að Caulker kæmi inn á.
„Þeir missa varnarmann út af á 37. mínútu og hann kemur ekki inn á. Mér finnst það voðalega skrýtið, þú ert búinn að vera með hann í mánuð.“
Stjarnan vann leikinn 4-1 eftir að hafa lent undir. Liðið skoraði öll mörk sín eftir að Axel Óskar Andrésson í liði Mosfellinga fékk að líta rauða spjaldið.