Paul Pogba, fyrrum ungstirni og leikmaður Manchester United, hitti fyrrum þjálfara sinn á Englandi nú á dögunum en sá maður heitir Warren Joyce.
Joyce er ekki nafn sem allir kannast við en hann vann með Pogba ásamt öðrum leikmönnum United í varaliði félagsins frá 2008 til 2016.
Í dag er Joyce þjálfari U18 liðs Nottingham Forest en hann á ansi frægan aðdáanda í Pogba sem gat varla talað betur um sinn fyrrum þjálfara hjá United.
,,Þvílíkur dagur. Ég er hérna ásamt manninum sem kom mér á þann stað sem ég er á í dag, gerði mig að þeim leikmanni sem ég er í dag,“ sagði Pogba.
,,Þetta er goðsögn. Joyce, Warren, minn maður. Ég get sagt það við þig, þú ert goðsögn.“
Joyce var vandræðalegur fyrir framan myndavélina en ákvað að svara frönsku stjörnunni.
,,Er hann að biðja mig um ‘selfie?’ Ég hef verið með honum í allan dag og fólk er að biðja um myndir og nú er hann að biðja mig um eina? Ég mun rukka hann.“