Andy Carroll var með tilboð frá mun stærri félögum en Dagenham & Redbridge í sumar en ákvað samt að semja við félagið.
Carroll segir sjálfur frá en Dagenham er utandeildarlið á Englandi og spilar í sjöttu efstu deild.
Carroll segir að sex eða sjö mun stærri félög hafi haft samband en hann hafði áhuga á að spila fyrir Dagenham.
Englendingurinn viðurkennir að hann hefði fengið mun betur borgað hjá þeim félögum en hann var mjög hrifinn af verkefninu sem er í gangi í Dagenham.
Carroll er fyrrum enskur landsliðsmaður og var síðast hjá Bordeaux í Frakklandi.
Hann er 36 ára gamall og er þekktastur fyrir tíma sinn hjá Newcastle, Liverpool og West Ham.