Eitt fyrsta verk Sir Jim Ratcliffe þegar hann tók við Manchester United var að byrja að byggja nýtt húsnæði á æfingasvæði félagsins.
Framkvæmdir kosta 50 milljónir punda eða 8 milljarða og þegar þessu er lokið verður æfingasvæði United í fremstu röð.
Ekki hafði verið farið í framkvæmdir um langt skeið á æfingasvæði United og það dregist aftur úr öðrum liðum.
Á meðal þess sem verður á svæðinu er rakarastofa og þar geta leikmenn og starfsmenn United farið í klippingu á vinnutíma.
Ákveðið var að fjölga gluggum frá því sem áður var en leikmenn höfðu kvartað undan því að stundum væri æfingasvæðið eins og spítali.
Sundlaugin sem var á svæðinu var tekin í gegn og þá var farið í það að taka aðra hluti í gegn auk þess að byggja talsvert.