KA hefur borist gríðarlega mikill liðsstyrkur fyrir síðari hluta sumarsins en Birnir Snær Ingason skrifaði í morgun undir samning út tímabilið.
Birnir sem mætir norður frá sænska liðinu Halmstad er 28 ára gamall vængmaður. „Bindum miklar vonir við að muni lyfta sóknarleik okkar upp á hærra plan,“ segir á vef KA.
Birnir vakti verðskuldaða athygli fyrir framgöngu sína er hann lék með Víking og var meðal annars valinn besti leikmaður Bestu deildarinnar sumarið 2023 er Víkingar unnu tvöfalt en BIrnir skoraði 12 mörk og gaf 8 stoðsendingar í 25 deildarleikjum það sumarið. Þar áður lék hann með HK og Val auk uppeldisfélags síns Fjölni.
Birnir gekk í raðir sænska liðsins Halmstad í byrjun ársins 2024 en það árið gerði hann fjögur mörk í 26 deildarleikjum. Í ár hafa tækifærin verið færri.