fbpx
Föstudagur 11.júlí 2025
433Sport

Utan vallar: Eins vont og hugsast gat – Erfitt að sjá Þorstein halda starfinu

Helgi Fannar Sigurðsson
Föstudaginn 11. júlí 2025 15:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Íslenska kvennalandsliðið lauk leik á EM í gær, fyrr en við höfðum vonast eftir. Niðurstaðan er ófyrirséð vonbrigði hjá okkar liði, í riðli þar sem við vorum hæst skrifaðasta liðið. Núll stig og ekki eitt mark sem hafði nokkra þýðingu. Eftir mótið er mörgum spurningum ósvarað um okkar ágæta lið. Sú stærsta varðar framtíð Þorsteins Halldórssonar landsliðþjálfara, en algjör stöðnun virðist hafa orðið á liðinu undir hans stjórn. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem menn velta framtíð hans fyrir sér, en sú umræða féll eðlilega í dvala eftir stórfína undankeppni EM undir hans stjórn, þar sem íslenska liðið vann frækna sigra á Póllandi, Austurríki og síðast en ekki síst stórsigur á Þýskalandi til að tryggja sig inn á EM.

Þar voru væntingarnar miklar. Íslenska liðið var efst á styrkleikalista FIFA í riðli sem innihélt einnig Noreg, Sviss og Finnland. Hörmuleg frammistaða í tapi gegn Finnum í fyrsta leik gaf hins vegar tóninn, áður en Stelpunum okkar var fleygt úr keppni strax í öðrum leik gegn Sviss, þar sem frammistaðan var að vísu mun skárri. Við tók ömurleg frammistaða gegn Noregi, en 4-3 sigur þeirra gefur í raun kolranga mynd af leiknum. Fyrir utan að hvíla meira en hálft byrjunarliðið sitt og tefla að mestu fram aukaleikurum, og átti bara eftir að bætast í þann hóp þegar leið á leikinn, fengu þær fullt af færum til að klára leikinn fyrr, áður en þær tóku fótinn allhressilega af bensíngjöfinni í restina. Gerði það Íslendingum kleift að minnka muninn, en Norðmenn höfðu tryggt efsta sæti riðilsins fyrir gærdaginn.

Þetta var annað stórmót Þorsteins og niðurstaðan sú sama og 2022, Ísland situr eftir í riðlinum. Munurinn á þessu móti og því síðasta var að niðurstaðan nú var enn lakari, núll stig og ekki ein sannfærandi frammistaða. Eins og Þorsteinn hefur sjálfur sagt þarf KSÍ nú að skoða stöðuna vandlega. Sjálfur vill hann vera áfram, en það er sennilega erfitt að réttlæta það eftir þetta mót. Frammistaðan var einfaldlega svo slök og það er enga framþróun að sjá á íslenska liðinu. Það er þó ekki aðeins við hann að sakast. Það er sennilega erfitt fyrir hann að berja það gríðarlega stress sem býr í leikmönnum úr þeim, sem leiðir til misheppnaðra sendinga og almennra mistaka inni á vellinum. Andlega virðist liðið okkar einfaldlega ekki eins sterkt og hæfileikarnir gefa til kynna. Þá hjálpar ekki að okkar hæfileikaríkasti leikmaður, Karólína Lea Vilhjálmsdóttir, sýndi alls ekki sitt rétta andlit á mótinu. Annar algjör lykilmaður, Sveindís Jane Jónsdóttir, sýndi ekki heldur sitt rétta andlit fyrr en við mættum Noregi og vorum þegar úr leik. Loks er oft eins og okkar lið sé bara hægara og í verra standi, alltof auðvelt að hlaupa yfir okkur. Stundum þarf hins vegar bara að lífga upp á hlutina þegar þeir eru staðnaðir og þá á gamla tuggan við; þú rekur þjálfarann frekar en allt liðið.

Stemningin virðist líka að einhverju leyti orðin súr. Reynsluboltinn og ein okkar besta landsliðskona í fleiri ár, Dagný Brynjarsdóttir, fór ekki leynt með það að hún væri ósátt við Þorstein eftir tapið gegn Norðmönnum í gær. Er hún ósátt við sitt hlutverk og að fá aldrei traustið í byrjunarliðinu meira en einn leik í einu. Faðir Amöndu Andradóttur talar út á við um ósætti með hennar hlutverk í liðinu, og hversu lítið það er. Þá var Þorsteinn sjálfur farinn að pirra sig á spurningum blaðamanna um framtíð hans á meðan EM stóð, spurningunni sem öll þjóðin er að velta fyrir sér. Allt ýtir þetta verulega undir að endalok hans í starfi nálgist. Hver myndi taka við er önnur spurning sem hefur svosem verið velt upp í umfjöllun víða. Það er eitthvað sem þarf að glíma við þegar þar að kemur.

Til að horfa á jákvæðu hliðarnar eigum við sennilega bestu stuðningsmenn í heimi. Þvílík gæsahúð að fylgjast með bláa hafinu styðja íslenska liðið gjörsamlega alla leið, þó það væri dottið úr leik. Íslendingar tóku yfir borgirnar sem við spiluðum í og það eina sem mátti sjá á Fan Zone borganna var blár litur. Það verður söknuður af íslensku stuðningsmönnunum fyrir Evrópumótið í heild sinni, því ég fullyrði að enginn annar hópur stuðningsmanna á EM kvenna býr til eins stemningu. Það þarf að horfa fram veginn. Næst á dagskrá er umspil í Þjóðadeildinni við Norður-Íra sem afar mikilvægt er að vinna upp á það í hvernig riðli við lendum í undankeppni HM 2027, sem fram fer í Brasilíu. Þó íslenska liðið sé fastagestur á EM höfum við aldrei farið á HM. Við þurfum að hugsa stórt. Ísland er í raun stórþjóð í kvennaknattspyrnu, fastagestur á stórmótum, og við eigum að haga okkur þannig.

Greinin inniheldur vangaveltur og skoðanir höfundar

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 10 klukkutímum

Eiga að vera spenntir fyrir manninum sem var með Mane, Duran og Ronaldo í vasanum

Eiga að vera spenntir fyrir manninum sem var með Mane, Duran og Ronaldo í vasanum
433Sport
Fyrir 11 klukkutímum

Gerrard hugsar enn um mistökin gegn Chelsea

Gerrard hugsar enn um mistökin gegn Chelsea
433Sport
Í gær

Noregur vann Ísland í sjö marka leik

Noregur vann Ísland í sjö marka leik
433Sport
Í gær

Einkunnir leikmanna Íslands: Lélegur endir á ömurlegu Evrópumóti

Einkunnir leikmanna Íslands: Lélegur endir á ömurlegu Evrópumóti