Memphis Depay, fyrrum leikmaður Manchester United og Barcelona, spilar í dag með liði Corinthians í Brasilíu.
Memphis eins og hann vill láta kalla sig er 31 árs gamall og hefur skorað 12 deildarmörk í 31 leik fyrir Corinthians.
Samkvæmt nýjustu fregnum er Memphis óánægður með brasilíska félagið og telur sig eiga inni bónusa sem hann hefur ekki fengið greidda.
Hollendingurinn var ekki sjáanlegur á æfingasvæðinu á miðvikudag og er sagður vera í einhverjum deilum við stjórn félagsins.
GE greinir frá því að Memphis fái sekt fyrir það að mæta ekki á æfinguna á miðvikudag en heldur því einnig fram að hann vilji halda áfram að spila fyrir brasilíska stórliðið.
Hann vill hins vegar fá þessa bónusa greidda og það strax en Corinthians er í ákveðnum fjárhagsvandræðum og er ekki víst að það verði möguleiki fyrr en í vetur.