Rio Ferdinand, goðsögn Manchester United, segir að Ollie Watkins eigi skilið að fá skrefið til Arsenal í sumar.
Watkins er 29 ára gamall sóknarmaður sem spilar með Aston Villa en hann hefur spilað með félaginu undanfarin fimm ár.
Arsenal reyndi að næla í markahrókinn í janúar án árangurs og gæti mögulega reynt aftur í sumarglugganum.
Ferdinand segir að Watkins sé búinn að skila sínu fyrir Villa og eigi það skilið að færa sig til stærra félags ef tækifærið gefst.
,,Hann er ‘cult hetja’ hjá þessu félagi og hann er ein af megin ástæðum þess að félagið er að spila í Meistaradeildinni og á þessu stigi í dag,“ sagði Ferdinand.
,,Það er erfitt fyrir alla varnarmenn að glíma við hann, hundrað prósent. Það kom mér ekkert á óvart þegar Arsenal sýndi honum áhuga því hann á það skref skilið miðað við frammistöðuna undanfarin ár.“