Jordan Henderson vill fara frá Ajax í sumar ef marka má hollenska miðla og virðast tvö félög einna helst koma til greina.
Þessi fyrrum fyrirliði Liverpool hefur verið í eitt og hálft ár hjá Ajax, en þangað kom hann eftir stutta dvöl í Sádi-Arabíu. Hann var nálægt því að fara frá hollenska liðinu í janúar en allt kom fyrir ekki.
Nú gæti það raungerst og gæti endurkoma Henderson í ensku úrvalsdeildina verið í kortunum. Hans fyrrum félag Sunderland komst nefnilega upp í ensku úrvalsdeildina á dögunum og ku hann vera spenntur fyrir að spila með því þar.
Þá hefur Rangers einnig áhuga, en hans fyrrum stjóri hjá Al-Ettifaq, Steven Gerrard, er orðaður við stjórastöðuna þar. Gerrard hefur áður stýrt skoska stórliðinu.
Henderson, sem er 34 ára gamall, á ár eftir af samningi sínum við Ajax og að öllu óbreyttu þyrfti því að kaupa hann þaðan.