Sara Björk Gunnarsdóttir lék með sádiarabíska liðinu Al-Qadsiah í vetur, en eins og flestir vita er mikill menningarmunur þar og á því sem við eigum að venjast.
Sara segir í samtali við Vísi að sér og fjölskyldu hennar hafi almennt liðið vel í Sádí en menningarmunurinn kom bersýnilega í ljós þegar hún fór eitt sinn í stuttbuxum í verslunarmiðstöð.
„Ég ákvað að fara í stuttbuxum. Svo löbbum við inn um hliðið og það er horft vel á mig. Árni (Vilhjálmsson maður hennar) segir: „Ég held að þú hefðir ekki átt að fara í stuttbuxum“ en ég hugsaði að þetta væri í lagi og við ætluðum í eitthvað leikjaland þarna með Ragnar,“ sagði Sara við Vísi.
„Bæði konur og karlar horfðu á mig þarna. Við drifum okkur samt í þetta leikjaland og sátum þar og drukkum kaffi þegar það komu þrír öryggisverðir. Þeir sögðu eitthvað á arabísku við afgreiðslukonuna og hún kom og sagði að ég yrði að fara út úr verslunarmiðstöðinni. Ég gæti ekki verið þarna í stuttbuxum.“
Sara reyndi að stökkva í næstu búð og kaupa sér buxur. „Þeir kölluðu bara á mig að koma mér út og ég reyndi að sýna þeim að ég þyrfti bara að komast í buxurnar. Þeir hristu bara hausinn en ég komst svo inn á salerni og í buxurnar.
Þetta var eina svona sem ég hef lent í þarna og maður sýnir auðvitað virðingu fyrir þeim reglum sem eru í landinu.“