Mikael Nikulásson fyrrum þjálfari KFA blöskrar að Daði Berg Jónsson kantmaður Vestra sé ekki í U21 árs landsliðinu. Daði hefur verið magnaður í sumar.
Daði Berg er á láni hjá Vestra frá Víkingi og hefur sprungið út í öflugu liði Vestra.
„Daði Berg, mér finnst alltaf gaman að sjá landsliðsþjálfara horfa á enska boltann þegar íslenski er byrjaður. Hann er ekki í U21 árs landsliðinu,“ sagði Mikael reiður og pirraður í Þungavigtinni í dag.
Mikael tók Ágúst Orra Þorsteinsson kantmann Breiðabliks sem dæmi en hann er í U21 árs liðinu, á meðan er Daði Berg í U19 ára landsliðinu.
„Ágúst Orri er í landsliðinu, ég er ekki að setja út á Ágúst. Hvor er búin að gera meira? Í hvaða heimi er hann ekki í U21 árs landsliðinu? Hvaða þvæla er þetta?“
„Hann er trúlega besti leikmaður Íslandsmótsins, einn af þeim. Getið þið útskýrt þetta fyrir mér? Þetta er hlægilegt.“
Mikael tók svo fleiri leikmenn sem eru í U21 árs liðinu á kostnað Daða sem skoraði tvö í sigri á Stjörnunni um helgina.
„Hvernig getur maður í Breiðablik sem er ekki með mark eða stoðsendingu, verið á undan honum? Róbert Frosti með 0 mínútur í Svíþjóð, á þessum tímapunkti að velja hann frekar.“
„Hvaða þvæla er þetta? Skorar tvö í þessum leik, ef hann væri í Víking þá væri hann í U21 árs landsliðinu.“