Helgi Fannar Sigurðsson, Hrafnkell Freyr Ágústsson og Hörður Snævar Jónsson fóru yfir allt það helsta í Íþróttavikunni á 433.is, en þættirnir koma út vikulega á 433.is.
Cecilía Rán Rúnarsdóttir var valin markvörður tímabilsins í Serie A á Ítalíu á dögunum, en hún er á mála hjá Inter. Er þetta mikil viðurkenning fyrir hana.
„Fyrir hana er frábært að fá að spila eftir að hafa verið, of lengi að mínu mati, markvörður númer tvö hjá Bayern,“ sagði Hrafnkell en Cecilía er á láni frá Bayern.
„Hún var mikið í meiðslum hjá Bayern en hefur tekist að kveikja á sér á ný. Það er mikilvægt fyrir sumarið og EM að hún sé að springa út,“ sagði Hörður.
„Hún og fleiri í landsliðinu hafa átt frábært tímabil. Eina áhyggjuefnið er kannski Sveindís Jane og hennar sjálfstraust. Við höfum byggt okkar sóknarleik svolítið á því að hún sé í gír,“ sagði hann enn fremur, en Sveindís er á förum frá Wolfsburg og líkur eru á að hún fari til Manchester United.